Umhverfismennt á hverju strái

Steinn Kárason skrifar samantekt sem fulltrúi Umhverfisfræðsluráðs Umhverfisráðuneytisins. Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. mars 2005.

Málþing Umhverfisfræðsluráðs um stöðu og framtíð umhverfismenntunar í námskrá grunnskólans var haldið fimmtudaginn 10. mars síðastliðinn í Norræna húsinu. Opnunarávarp flutti Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri í Umhverfisráðuneytinu og fjórir fyrirlesarar fluttu framsöguerindi. Þessi grein er í senn samantekt og eftirþankar undirritaðs um málþingið og er ætluð lesendum til upplýsingar.

Endurskoðun á aðalnámskrá grunnskólans á Íslandi stendur nú yfir. Í alþjóðlegu samhengi verður að hafa í huga að mannkyn á einungis eina jörð til afnota um alla framtíð. UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur gefið þjóðum heims tóninn í þessum efnum og leggur ásamt öðru áherslu á gæða menntun fyrir alla jarðarbúa. Menntun, fræðsla og stefnumótun í umhverfismálum varðar allt okkar samfélag í stóru og smáu. Af þeirri ástæðu þarf að leggja áherslu á að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í námskrá grunnskólans á Íslandi. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisfræðsluráð eiga samvinnu við ýmsa aðila og frjáls félagasamtök, um fræðslu og verkefni á sviði umhverfismála. Almenn uppbyggileg umræða þarf að eiga sér stað í samfélaginu og innlegg umhverfissérfræðinga, kennara og alls almennings inní þá vinnu er nauðsyn. Umræðan þarf að vera opinská og gagnsæ. Skilgreina þarf hugtakið umhverfismennt, hvert eigi að stefna, hvaða árangurs megi vænta af umhverfisfræðslu og fjalla um hvort umhverfismennt eigi að vera námsgrein eða námsþáttur. Breytt námskipan til stúdentsprófs kallar á aukna samfellu í skólastarfi og nauðsyn þess að „samlesa“ námskrá eftir skólastigum til að auka skilvirkni. Við lifum í síbreytilegu þjóðfélagi þar sem óvissa ríkir um þróun samfélagsins, tækni og náttúrufar bæði staðbundið og á heimsvísu. Viðhorf og vinnubrögð við stefnumótun hljóta að taka mið af þeim aðstæðum. Endurskoðuð námskrá getur byggt á ákveðnum ramma um umhverfismennt, þar sem áhersla er lögð á samþættingu en jafnframt frjálsræði og ábyrgð skóla og kennara innan rammans.

Almenn fræðsla
Umhverfisfræðslu fullorðinna þarf að efla sem og uppbyggilega umhverfisfræðslu á heimilum. Samkvæmt niðurstöðu nýlegrar könnunar á Íslandi hugsar ungt fólk lítið, og veit lítið um umhverfismál. Hið sama gildir um þorra almennings, sem ekki veit hvað Staðardagskrá 21 er. Fjöldi fólks sem dvelst við nám erlendis temur sér umhverfisvæna lífshætti s.s. að spara vatn, að nýta sér almenningssamgöngur og að flokka sorp til endurvinnslu. En þegar fólk snýr heim frá námi afleggur það góða umhverfissiði og eru orsakirnar eru óljósar.

Atvinnulíf og háskólar
Nauðsynlegt er að samþætta umhverfismennt allri menntun. Umhverfismennt og fræðsla um umhverfismál þarf að vera þverfagleg og taka til allra þátta þjóðlífsins og atvinnulífsins í heild. Menntun kennara og menntun barna í grunnskólum er ástæðulaust að taka sérstaklega úr heildarmyndinni, við það getur myndast illbrúanlegt bil. Umhverfismennt þarf að vera almenn og taka mið af því að núlifandi kynslóðir haldi sínum lífsgæðum án þess að skerða lífsgæði komandi kynslóða. Verkefnin sem vinna þarf eru óþrjótandi og snerta flesta þætti samfélagsins, s.s. orku og auðlindanýtingu, sparnað almennt og hagkvæmni í samgöngum, frárennslismál og sorpförgun, endurvinnslu og nýsköpun, lífrænan landbúnað og vistvæna vöruþróun- og þjónustu.

Í fagskólum þarf að gera sérstakt átak í umhverfismennt, sérstaklega í viðskipta- og hagfræði. Einungis einn háskóli á Íslandi mun hafa sett sér umhverfisstefnu. Lykillinn að náttúruvernd og umhverfismenntun og jafnframt skynsamlegri auðlindanýtingu er þekking og skilningur, ásamt færni og væntumþykju á náttúrunni.