Kostnaður og gróði af umhverfisstarfi

Steinn Kárason skrifar. Greinin birtist í Morgunblaðinu miðvikudag 28. september 2005, í tengslum við ráðstefnuna „Hreinn ágóði“, sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík að tilstuðlan Umhverfisfræðsluráðs Umhverfisráðuneytisins o.fl.

Segja má að kostnaður og ágóði af umhverfisstarfi byggi á þremur grunn þáttum; siðfræði, hagfræði og vistfræði. Þróuð hafa verið og innleidd í fyrirtæki og stofnanir, stöðluð gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi sem byggja á einum eða fleiri þessara þátta. Staðlarnir eru einskonar uppskrift að góðum og ábyrgum stjórnunarháttum. Meðal þessara staðla má nefna ISO-9000 gæðastjórnunarkerfi, ISO-14000 umhverfisstjórnunarkerfi og ISO-14031 staðalinn þar sem fyrirtæki geta markvisst skjalfest aðgerðir sínar til umhverfisbóta. Fyrirtæki innleiða staðlana af fúsum og frjálsum vilja, vitandi um kostnað og fyrirheit um ágóða. Fyrirtækjum í ákveðnum atvinnugreinum sem náð hafa tiltekinni stærð, er skylt samkvæmt íslenskum lögum að færa grænt bókhald. Auk þess innihalda ársskýrslur fyrirtækja í vaxandi mæli upplýsingar um umhverfis-, jafnréttis- og samfélagsmál.

Samverkandi þættir
Siðfræði þátturinn byggir m.a. á vestrænni hugmyndafræði, sem með öðru á rætur í kristinni siðfræði, svo sem þeim rétti manna að nýta auðlindir jarðar sér til hagsbóta en einnig þeirri hugmyndafræði að menn hafi jörðina einungis að láni frá börnum sínum. Innan siðfræðinnar blómstrar pólitíkin og það hlutverk stjórnmálamanna að móta lög og leikreglur sem hafa samfélagsleg áhrif, jafnt á ríkidæmi og fátækt sem og á þróun sjúkdóma á borð við HIV, svo eitthvað sé nefnt.

Hagfræði þátturinn lýtur m.a. að þeim rétti einstaklinga, og reyndar lagalegri skyldu margra fyrirtækja og samfélaga að ávaxta sitt pund á sem hagkvæmastan hátt í þágu umbjóðenda sinna. Krafa um arðsemi í rekstri fyrirtækja situr að sjálfsögðu í fyrirrúmi, en aðrir rekstrarþættir vega minna.
Vistfræði þátturinn setur svo málefni náttúrunnar í öndvegi með það að markmiði að nýta náttúrulegar auðlindir á sjálfbæran hátt, með heildar hagsmuni og langtíma sjónarmið í huga.

Af hverju umhverfisstarf?
Ástæður fyrir umhverfisstarfi í fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum eru margar, s.s. alþjóðlegir samningar, ný og breytt lög og reglur, þrýstingur frá íbúum og hluthöfum og þrýstingur frá viðskiptavinum og neytendum. Auk þess hafa fyrirtæki séð sér leik á borði að bæta orðspor sitt og ímynd með umbótastarfi á sviði umhverfismála. Undirliggjandi drifkraftur fyrir innleiðingu gæða- og umhverfisstjórnunarkerfis í fyrirtæki er sá að bæta fjárhagsafkomu fyrirtækisins. Aukaafurðin, ef litið er á málið frá þessum sjónarhóli, verður betri nýting auðlinda og hráefnis, betra umhverfi, ánægðari starfsmenn, betri ímynd fyrirtækis og hækkað gengi hlutabréfa.

Fjárhagslegur ávinningur: Lægri vextir? Hærri tekjur en gjöld?
En er um að ræða fjárhagslegan ávinning af umhverfisstarfi í fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum? Fá fyrirtæki betri vaxtakjör hjá bönkum vegna minni útlánaáhættu? Eru iðgjöld til tryggingafélaga hjá umhverfisvænum fyrirtækjum lægri en annarra?

Almennt sagt er svarið við þessum þrem spurningum já. Það er fjárhagslegur ávinningur af umhverfisstarfi í fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum. Það er í vaxandi mæli tilhneiging til þess að umhverfisvæn fyrirtæki njóti betri lánakjara hjá bönkum en önnur fyrirtæki. En þó sjást þess enn þá, lítt eða ekki merki að fyrirtæki sem innleitt hafa gæða- eða umhverfisstjórnunarkerfi njóti þess arna með lægri iðgjöldum tryggingafélaga.

Í alþjóðlegri könnun sem gerð var ekki alls fyrir löngu, meðal 5000 fyrirtækja sem innleitt höfðu ISO umhverfisstjórnunarkerfi, kom fram að yfir 80% fyrirtækjanna töldu að innleiðing umhverfisstjórnunarkerfisins hefði haft umtalsverðan sparnað í för með sér. Talsmenn yfir 60% fyrirtækjanna staðhæfðu að kostnaðurinn við innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfisins hefði skilað sér aftur innan árs. Þessi niðurstaða vekur upp spurningar. Af hverju hafa einungis fimm íslensk fyrirtæki innleitt vottað umhverfisstjórnunarkerfi? Er ágóðinn vanmetinn? Eru íslenskir bankar jafn umhverfisvænir og bankar í nágrannalöndunum? Ættu lífeyrissjóðir að innleiða umhverfismál- og siðfræði í fjárfestingastefnu sína? Eru „umhverfis- og siðfræði hlutabréfasjóðir“ fjárfestingakostir framtíðarinnar? Þessum spurningum og fleiri mun höfundur leitast við að svara á ráðstefnunni á Grand Hótel í dag.

Eftirmáli
Ég [Steinn Kárason] var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni og var erindi mitt þar á sömu nótum og blaðagreinin. Þar varpaði ég fram spurningum og leitaði svara eins og greinir frá hér að neðan.
Þessi niðurstaða vekur upp spurningar. Af hverju hafa einungis fimm íslensk fyrirtæki innleitt vottað umhverfisstjórnunarkerfi? Er ágóðinn vanmetinn? Vantar fleiri gulrætur? Svar: Já, yfirvöld ættu að taka til gaumgæfilegrar athugunar að veita vottuðum fyrirtækjum skattaívilnanir í tiltekinn árafjölda eftir að vottun er staðfest.

Eru íslenskir bankar jafn umhverfisvænir og bankar í nágrannalöndunum? Svar: Það er misjafnt, en þegar ég rannsakað málið, sýndi mælingin að þeir íslensku stóðust bestu erlendu bönkunum ekki snúning. Rannsóknin náði til 367 norrænna fjármálastofnana um 20 banka í Evrópu.

Hvað eru „umhverfis- og siðfræði hlutabréfasjóðir„? Svar: Þeir eru myndaðir af „hóp fyrirtækja“ sem staðist hefur tilteknar kröfur varðandi umhverfismál og siðfræði. Flest fyrirtækjanna hafa innleitt siðfræði-, gæða-, umhverfis,- og velferðarstefnu, (ethical-, environmental-, social policy) eða hafa samofið slíka þætti í heildarstefnumótun sína. Fyrirtækin eru svo dæmi séu tekin, ekki í kjarnorku- né eiturefnaiðnaði iðnaði, stunda ekki vopnaframleiðslu, framleiða hvorki áfengi né tóbak, ástunda ekki barnaþrælkun né beita starfsfólk sitt kúgun og misrétti. Kostir sjóðanna eru margir en líklega má færa rök fyrir veikleikum þeirra einnig.

Ættu lífeyrissjóðir að innleiða umhverfismál- og siðfræði í fjárfestingastefnu sína? Svar: Já, að sjálfsögðu, m.a. þannig tryggja þeir hag umbjóðenda sinna og stuðla að sjálfbærri þróun. Eru „umhverfis- og siðfræði hlutabréfasjóðir“ fjárfestingakostir framtíðarinnar? Svar: Já, vaxandi áhugi er meðal fjárfesta, sparifjáreiganda, einstaklinga, lífeyrissjóða og fleiri að fjárfesta í slíkum sjóðum. Horft er til langtíma ávöxtunar og minni áhættu.

Þeir aðilar sem stóðu að ráðstefnunni á Grand Hótel miðvikudaginn 28. September 2005, voru Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Umhverfisfræðsluráð og Samtök iðnaðarins. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Hreinn ávinningur af umhverfisstarfi fyrirtækja“.

Steinn Kárason.