Brimnesskógar

Vinna við endurheimt Brimnesskóga hefur staðið yfir frá 1995. Við endurheimt Brimnesskóga eru eingöngu notaðar trjátegundir, einkum birki og reynir sem vaxið hafa í Skagafirði frá ómunatíð. Birki ættað úr Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal hefur verið kynbætt og fræ af því er notað til ræktunar. Landið sem Brimnesskógar, félag hefur til afnota er um 23 ha og er í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skógræktarsvæðið er við ána Kolku skammt frá Kolkuósi í Skagafirði. Endurheimt Brimnesskóga er sjálfboðaliðastarf.

Starfsemi félagsins byggir á frjálsum fjárframlögum og er þeim sem styrkja vilja verkefnið bent á reikning Brimnesskóga í Kringluútibúi Arion; banki 323, Hb13 reikningur 700706 kt 491204-4350.

Stjórn félagsins skipa Steinn Kárason, Stefán S. Guðjónsson, Vilhjálmur Egilsson, Jón Ásbergsson og Sölvi Sveinsson.

 

Birkikynbæturnar

Steinn Kárason garðyrkjumeistari og frumkvöðull að endurheimt Brimnesskóga tók greinar af ellefu völdum birkitrjám í Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal til ágræðslu og fræræktar. Við náttúrulegar aðstæður er ekki vitað um faðerni fræsins, heldur aðeins móðerni. Við einangraðar aðstæður í gróðurhúsi er hins vegar vissa um að einungis valin tré frjóvgast innbyrðis. Á þennan hátt er talið að ríflega 30% hæðaraukning trjánna náist fram á einni kynslóð. Með kynbótunum er stefnt að því fá fljótvaxin tré, einstofna og beinstofna og ljósari á börk.

Klipptar eru greinar af völdum birkitrjám í skóginum. Greinarnar eru græddar á birki í 12 cm plastpottum í gróðurhúsi. Þar vaxa þær í 2-4 ár. Greinarnar verða náttúrulausar í gróðurhúsi. Eftir nokkur ár í gróðurhúsi eru ágræðsluplönturnar gróðursettar á beð utandyra. Innan fárra ára fá ágræddu greinarnar náttúruna að nýju. Kynþroskinn sést einkum á myndun karlrekla að hausti. Plönturnar eru rótstungnar nokkrum sinnum á meðan þær vaxa utandyra. Þegar kynþroska er náð eftir 5-10 ár eru plönturnar teknar upp að hausti, pottaðar og komið fyrir í köldu gróðurhúsi. Þar lifna þær og laufgast talsvert fyrr en utandyra. Notaður er loftblásari til að feykja frjókornunum af karlreklunum á kvenreklana. Einangrun trjánna í gróðurhúsi tryggir að völdu úrvals trén æxlast eingöngu innbyrðis og tryggt er að óæskilegt frjó berist ekki utan að. Afraksturinn er kynbætt fræ sem gefur öflugri tré.