Brimnesskógar

Við styðjum endurheimt Brimnesskóga

Brimnesskógar, félag hefur unnið að endurheimt Brimnesskóga frá 1995. Við endurheimt Brimnesskóga eru eingöngu notaðar trjátegundir, einkum birki og reynir sem vaxið hafa í Skagafirði frá ómunatíð. Birki ættað úr Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal hefur verið kynbætt og fræ af því er notað til ræktunar. Landið sem Brimnesskógar, félag hefur til afnota er um 23 ha og er í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skógræktarsvæðið er vestan við ána Kolku skammt frá Kolkuósi í Skagafirði. Endurheimt Brimnesskóga er sjálfboðaliðastarf og byggir á frjálsum fjárframlögum.

Styrktarreikningur Brimnesskóga hjá Arion banka: 323-13-700706 á kt. 491204-4350.

Birkikynbæturnar

Steinn Kárason garðyrkjumeistari og frumkvöðull að endurheimt Brimnesskóga tók greinar af ellefu völdum birkitrjám í Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal til ágræðslu og fræræktar. Við náttúrulegar aðstæður er ekki vitað um faðerni fræsins, heldur aðeins móðerni. Við einangraðar aðstæður í gróðurhúsi er hins vegar vissa um að einungis valin tré frjóvgast innbyrðis. Á þennan hátt er talið að ríflega 30% hæðaraukning trjánna náist fram á einni kynslóð. Með kynbótunum er stefnt að því fá fljótvaxin tré, einstofna og beinstofna og ljósari á börk.

Klipptar eru greinar af völdum birkitrjám í skóginum. Greinarnar eru græddar á birki í 12 cm plastpottum í gróðurhúsi. Þar vaxa þær í 2-4 ár. Greinarnar verða náttúrulausar í gróðurhúsi. Eftir nokkur ár í gróðurhúsi eru ágræðsluplönturnar gróðursettar á beð utandyra. Innan fárra ára fá ágræddu greinarnar náttúruna að nýju. Kynþroskinn sést einkum á myndun karlrekla að hausti. Plönturnar eru rótstungnar nokkrum sinnum á meðan þær vaxa utandyra. Þegar kynþroska er náð eftir 5-10 ár eru plönturnar teknar upp að hausti, pottaðar og komið fyrir í köldu gróðurhúsi. Þar lifna þær og laufgast talsvert fyrr en utandyra. Notaður er loftblásari til að feykja frjókornunum af karlreklunum á kvenreklana. Einangrun trjánna í gróðurhúsi tryggir að völdu úrvals trén æxlast eingöngu innbyrðis og tryggt er að óæskilegt frjó berist ekki utan að. Afraksturinn er kynbætt fræ sem gefur öflugri tré.

Ungmenni úr umhverfishóp Landsvirkjunar í Blöndustöð við endurheimt Brimnesskóga 2018

BRIMNESSKÓGAR – kynningartexti

„Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé, en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt, en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.“

(Landnámabók Ara fróða Þorgilssonar)

Atburður þessi markar upphaf skógeyðingar í Skagafirði en jafnframt upphaf glæstrar hrossaeignar Skagfirðinga. Ritaðar heimildir eru til um viðartekju á þessum slóðum fram á 18. öld. Örnefni og bæjarnöfnin Víðines, Viðvík, Raftahlíð, Skógar og Skógarhlíð vitna enn um forna landkosti.

Enn finnst landnámsbirki og forn birkiskógur í Skagafirði, m.a. í Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal, í Ljótsstaðaskógi ofan Hofsóss, í Gljúfurárgili sunnan Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit og í Fögruhlíð í Austurdal. Hæstu birkitrén í þessum skógum eru nú 5-8 metra há og 12,5 metra löng. Þess er vænst að tré í endurheimtum Brimnesskógum, birki og reynir nái 12-15 metra hæð á 50-70 árum.

„Tilgangur félagsins Brimnesskóga er að endurheimta hina fornu Brimnesskóga í Skagafirði eingöngu með Skagfirskum efnivið; kynbótabirki, vefjaræktuðum reyni og víði úr Hrolleifsdal og Austurdal í Skagafirði og að miðla fræðslu um verkefnið. Fjár til starfsemi félagsins er aflað með frjálsum framlögum þeirra sem vilja leggja starfseminni lið.“

1995: Frumkvöðull að endurheimt Brimnesskóga Steinn Kárason kynnti verkefnið í Morgunblaðinu 18. júlí og einnig í útvarpsþættinum „Um daginn og veginn.“ Þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum var kynnt hugmyndin.

1996: Greinar af 11 völdum trjám í Geirmundarhólaskógi teknar til kynbóta. Ágræðsla birkis hófst í gróðrarstöðinni Mörk í Reykjavík. Kynbætur og frærækt stóð yfir í um 15 ár.

2004: Félagið Brimnesskógar stofnað. Fyrsta gróðursetning birkis og gulvíðis með styrk Yrkjusjóðs frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrv. forseta Íslands. Plöntur ræktaðar af fræi úr Geirmundarhólaskógi og Fögruhlíð. Um 150 grunnskólabörn og kennarar úr Árskóla Sauðárkróki, Grunnskólanum Hólum, Grunnskólanum Hofsósi, Grunnskólanum Sólgörðum gróðursettu ásamt sjálfboðaliðum.

2005: Fyrsta uppskera af kynbættu birkifræi úr Hrolleifsdal. Vefjarækt á reynivið úr Hrolleifsdal hófst.

2008: Samningur félagsins Brimnesskóga við sveitarfélagið Skagafjörð um afnot af 23 ha lands til starfseminnar undirritaður. Um 30 ágrædd birki-móðurtré gróðursett og 170 vefjaræktuð reynitré.

2009: Land Brimnesskóga girt. Birki úr Gljúfurárgili tekið í ræktun.

2010 – 2023: Sjálfboðaliðar og ungt fólk frá Blöndustöð Landsvirkjunar hafa nú gróðursett 60-70 þúsund plöntur og dreift áburði árlega.

Stjórn Brimnesskóga skipa Stefán Guðjónsson stjórnarformaður, Steinn Kárason framkvæmdastjóri, Jón Ásbergsson, Sölvi Sveinsson og Vilhjálmur Egilsson.