Steinn Kárason skrifar. Greinin birtist í hverfisblaði í Fossvogi í maí 2005.
Að sögn íbúa við Hlaðaland hefur orsakast „allt að því stríðsástand“, vegna mikillar bílaumferðar í vetur, þegar foreldrar aka börnum sínum í Fossvogsskóla að morgni. Orsakirnar eru m.a. skipulagsbreytingar að hálfu borgaryfirvalda varðandi skólastarf og þröng akstursleið. Ökumenn aka of greitt og taka ekki nægjanlegt tillit til aðstæðna svo hættuástand hefur skapast.
Skólastjórnendur í Fossvogsskóla sendu margítrekað erindi með beiðni um úrbætur til borgaryfirvalda án þess að svar bærist um að erindi þeirra væri móttekið. Eftir sjö ítrekanir barst svar og fundur með borgarstjóra var þann 6. apríl, en þann fund sátu skólastjórnendur í Fossvogsskóla, formenn foreldraráðs og foreldrafélags Fossvogsskóla og íbúi við Haðaland. Íbúar þurfa að sinna skyldu sinni, aka eftir reglum, fjarlægja gróður sem byrgir vegfarendum sýn, nota reiðhjólahjálma og brýna hjálmanotkun fyrir börnunum.
Aðkoma sjúkrabíla að Borgarspítalanum er erfið. Á tveimur árum hafa a.m.k. tvö börn orðið fyrir bílum á Háaleitisbraut neðan Borgarspítala. Og á mótum Fossvogsvegar og Háaleitisbrautar hafa a.m.k. 5 bílar lent í árekstrum og útafkeyrslum og 2 ljósastaurar verið keyrðir niður á sama tímabili.
Borgaryfirvöld verða að axla sína ábyrgð í þessum málum, úrbóta er enn beðið. Aðgerðarleysi borgaryfirvalda býður hættunni og sorginni heim.