Námskeið

Námskeið og fyrirlestrar fyrir fyrirtæki, félög, saumaklúbba og hópa. Námskeið eru sniðin að þörfum viðskiptavina. Hér fyrir neðan má sjá námskeið sem í boði eru.

Ávaxtatré, ræktun og klipping

Fjallað er um gróðursetningu, klippingu og umhirðu helstu ávaxtatrjáa sem þrífast á Íslandi, en það eru epli, perur, plómur og kirsuber. Helstu efnisatriði námskeiðsins eru yrki, jarðvegur, skjól, áburður og vökvun ásamt uppbindingu, frjóvgun og grisjun blóma og aldina. Sýndar verða teiknaðar skýringarmyndir og einnig ljósmyndir af íslenskum ávaxtatrjám.

Sáning og ræktun kryddjurta og matjurta

Fjallað um sáningu og ræktun algengra og auðræktanlegra kryddjurta og matjurta. Sagt frá mismunandi tegundnum og afbrigðum og á hvaða árstíma er vænlegast að sá til hverrar tegundar. Þátttakendur fá fræðslu um hvaða ræktunaraðstæður og hvaða aðföng þarf til að ná góðum ræktunarárangri.

Trjá- og runnaklippingar

Fjallað er um tímasetningu og klippingaaðferðir, s.s. vaxtarstýringu, krónuklippingu lauftrjáa, klippingu barrtrjáa, formklippingu, uppbyggingu og klippingu limgerða. Kennt er að greina á milli klippingaaðferða runna sem blómgast á árssprotum eða á fyrra árssprotum. Einnig fjallað um rósir, algenga berjarunna og að færa tré og runna. Fjallað um græðlingatöku og undirstöðuatriði við fjölgun og sáningu nokkurra viðartegunda.

Lífræn ræktun

Helstu efnisþættir á námskeiðinu eru markmið lífrænnar ræktunar og lífræns landbúnaður. Tilgangur lífrænnar ræktunar og aðferðafræði byggð á reynslu kynslóðanna. Lífrænn áburður og hlutverk hans, safnhaugagerð, safngryfjur, tunnur og tankar. Áhrif himinhnatta á plöntur, hvatar og sáðalmanök og loks er fjallað um lífrænar varnir gegn sjúkdómum, þar með talið seyði.

Íslenskar lækningajurtir, söfnun þeirra, verkun og notkun

Á námskeiðinu verður fjallað um algengar íslenskar drykkjar- og lækningajurtir og leiðbeint um söfnun þeirra, verkun og notkun. Stiklað verður á stóru í sögulegu samhengi og áhersla lögð á sjálfbærni og virðingu við náttúruna. Söfnun jurta í fögru umhverfi er ánægjulegt og lærdómsríkt viðfangsefni og kjörið fyrir samhentar fjölskyldur og einstaklinga unga sem aldna. Í tengslum við námskeiðið er í boði grasaferð og berkleg æfing þar sem elduð er hvannasúpa og útbúið er græðismyrsl.

  • Fjallað um tíu algengar íslenskar lækningajurtir sem um aldir hafa verið nytjaðar og taldar viðhalda og efla heilbrigði.
  • Leiðbeiningar varðandi söfnun, verkun og geymslu jurtanna og uppskriftir af hvannasúpu og „heilsueflandi grasaseyði“.
  • Tilsögn í að útbúa smyrsl, grasaseyði og grasaseyði.
  • Innsýn í þróun og sögu grasalækninga og nýjar rannsóknir sem styðja reynslu forfeðranna.
  • Leiðbeiningar um hvernig nytja má íslensk grös án þess að ganga á gjafir jarðarinnar.
  • Leiðbeiningar um hvar megi afla frekari upplýsinga um íslenskar drykkjar- og lækningaplöntur.

Vorverkin í garðinum

Helstu umfjöllunarefni á námskeiðinu eru trjá- og runna klippingar, hreinsun beða og safnhaugurinn. Gróðursetning, umplöntun og sáning. Áburðargjöf og vökvun. Sláttur, kantklipping, kantskurður og aðgerðir gegn mosa.

Orsakir og afleiðingar myglusveppa

Fjallað er um helstu orsakir og afleiðingar af völdum myglusveppa. Veikindi og heilsutjón vegna myglusveppa er samfélagslegt böl og fjárhagslegt tjón er einnig verulegt. Fjallað verður um áhættuþætti og greiningu á myglusveppum í híbýlum, viðbrögð og úrbætur, algeng veikindaeinkenni og leiðir til bata eftir myglusveppaveikindi. Loks verður drepið á lög og reglur, húsbyggingar, hönnun smíði eftirlit og ábyrgð. Þáttakendum býðst bókin Martröð með myglusvepp á tilboðsverði.

Qigong

Qigong byggir á ævafornri kínverskri hefð og á vaxandi vinsældum að fagna hér á landi. Á námskeiðinu verður kynning og leiðbeiningar í æfingakerfi sem kalla má heilsu- og hugleiðslu qigong. Qigong er samhæft kerfi öndunar, hreyfinga og einbeitingar sem miðar að því að viðhalda og efla heilsu iðkenda, efla ónæmi gegn sjúkdómum, efla styrk gegn umhverfisáreiti og auka getu líkama og sálar til að endurheimta og viðhalda heilbrigði. Qigong eykur vellíðan og lífsgæði og stuðlar að andlegu og líkamlegu jafnvægi iðkenda. Æfingunum fylgja ekki átök og iðkendur svitna ekki, blóðrás eykst og líkaminn hitnar. Þörf er á einbeitingu og úthaldi. Qi gong byggir á:

a) öguð öndun

b) öguð hugsun

c) agaður líkamsburður