Náttúruvernd, auðlindanýting og velferð samfélagsins

Steinn Kárason skrifar. Grein send til birtingar í Vesturbæjarblaðinu 22.10. 2006.

Náttúruvernd og skynsamleg nýting náttúruauðlinda eru meðal brýnna viðfangsefna sem bíða úrlausnar okkar Íslendinga á næstu árum. Umhverfismál almennt þarf einnig að taka föstum tökum vegna þess að umhverfismál snerta samfélagið í stóru og smáu, hvort sem fjallað er um skipulags-, efnahags- eða samfélagsmál. Við þurfum að líta á þessi mál sem eina heild. Gríðarlegur ávinningur er fólginn í skynsamlegri umhverfisstjórnun. Í þeim efnum er meðalhófið farsælast.

Stefnumótun í auðlindanýtingu
Löngu er tímabært að þjóðin móti stefnu til langs tíma um nýtingu hálendisins sem og annarra landsins gagna og gæða. Því ber að fagna að ríkisstjórnin hefur lagt fram fyrstu drög að þeirri vinnu. Að sjálfsögðu á Alþingi að leiða þetta ábyrgðarstarf en þjóðin þarf einnig að draga lærdóm af reynslu liðinna ára í umhverfismálum, sem ýmsir telja bitra. Brýnt er að bærileg sátt náist um nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að kalla til verka alla hugsanlega hagsmunaaðila, s.s. sveitarfélög, frjáls félagasamtök, einstaklinga og aðra sem hafa beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta. Ég álít það vera borgaralega skyldu hvers og eins að taka þátt í stefnumótun um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Menntamál og nýsköpun
Menntamál, nýsköpun og rannsóknir eru lykilinn að velmegun og samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Líta þarf á menntun sem fjárfestingu fremur en útgjöld. Menntun, fræðsla og stefnumótun í umhverfismálum varðar allt samfélagið. Þess vegna ætti að leggja þyngri áherslu á að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í námskrá á öllum menntastigum á Íslandi, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.

Grænfáninn er dæmi um umhverfisverkefni sem unnið er víða í grunnskólum. En grænfáninn er umhverfismerki sem er tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Grænfánanum flagga þeir skólar sem náð hafa settum markmiðum í umhverfismálum. Þetta er hliðstætt því þegar fyrirtæki á borð við álverksmiðjur, orkufyrirtæki og prentsmiðjur fá vottun frá óháðum aðila fyrir innleiðingu ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfis. Með þetta í huga er nauðsynlegt er að auka samvinnu atvinnulífsins, fyrirtækja og háskóla um rannsóknir og nýsköpun vegna þess að menntastefna og atvinnustefna hvers samfélags eru tvær hliðar á sama pening.

Fjölskyldan, hornsteinn samfélagsins
Höfum hugfast að fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins. Því ber að tryggja að til staðar sé traust öryggisnet fyrir borgarana og velferð frá vöggu til grafar.