Steinn Kárason skrifar. Greining birtist í Morgunblaðinu 25. október 2006.
Náttúruvernd og skynsamleg nýting náttúruauðlinda eru meðal brýnna viðfangsefna sem bíða úrlausnar okkar íslendinga á næstu árum. Umhverfismál almennt þarf einnig að taka föstum tökum vegna þess að umhverfismál snerta samfélagið í stóru og smáu, hvort sem fjallað er um skipulags-, efnahags- eða samfélagsmál. Við þurfum að líta á þessi mál sem eina heild. Gríðarlegur ávinningur er fólginn í skynsamlegri umhverfisstjórnun. Í þeim efnum er meðalhófið farsælast.
Ávinningur af umhverfisstjórnun
Ávinningur fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga af umhverfisstjórnun er margþættur. Að ekki sé minnst á ávinning náttúrunnar sjálfrar og umhverfisins. Lykillinn að ávinningi er að hafa frumkvæði. Fyrirtæki sem taka upp umhverfisstjórnunarkerfi gera það að eigin frumkvæði og á eigin ábyrgði. Þau bíða ekki eftir lagasetningu eða opinberum reglugerðum né láta almenningsálitið stýra ferðinni. Það eru fyrirtækin sjálf og hinn frjálsi markaður sem stýra för. Reynsla jafnt íslenskra sem erlendra fyrirtækja hefur leitt í ljós að unnt er að spara hráefnis- og orkukostnað, lækka annan rekstrarkostnað en bæta jafnframt umhverfið og ímynd fyrirtækisins.
Með vaxandi umhverfisvitund hefur umhverfisstjórnun fengið sífellt meira vægi í rekstri nútíma fyrirtækja og markviss umhverfisstjórnun skilar fyrirtækjum ótvíræðum ávinningi. Eitt helsta hjálpartæki við umhverfisstjórnun eru svokallaðir umhverfisstaðlar. Með notkun umhverfisstaðla er unnt með kerfisbundnum hætti að ná tökum á stjórn umhverfismála. ISO 14001 staðlarnir sem eru alþjóðlegir og EMAS reglugerðin sem Evrópusambandið hefur gefið út, fjalla um umhverfisstjórnun. Þessi kerfi bjóða bæði upp á vottun. Aðeins fáein fyrirtæki á Íslandi hafa vottuð umhverfisstjórnarkerfi. Þess utan hafa a.m.k. tvö fyrirtæki hlotið Hvíta svaninn, norrænt umhverfismerki fyrir tiltekna vöru eða þjónustu.
Skattaívilnanir vegna umhverfisbóta
Könnun sem gerð var meðal 5000 IS0 vottaðra fyrirtækja í Bretlandi leiddi í ljós að 80% aðspurðra sögðu að innleiðing umhverfisstjórnunarkerfis hefði sparað þeim umtalsvert fé og 60% aðspurðra staðhæfðu að kostnaður við innleiðingu hefði skilað sér innan árs. Þessar staðreyndir leiða hugann að því að aðeins sjö íslensk fyrirtæki eru IS0-14001 vottuð. Af hverju eru þau ekki fleiri í ljósi þess að efnahagslegur, umhverfis- og samfélagslegur ávinningur virðist vera augljós?
Ég álít að samtök vinnumarkaðarins, sveitarfélög og stjórnvöld ættu að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Viturlegt væri að íhuga að veita vottuðum fyrirtækjum skattaívilnanir tímabundið enda hafi fyrirtækin lagt fram skerf til umhverfis- og samfélagsbóta. Slík ráðstöfun væri í anda þess þegar kaupendum hlutabréfa var veittur skattaafsláttur við upphaf hlutabréfamarkaðar hér á landi.