Vistvæn borg, allir græða

Steinn Kárason skrifar. Greinin var skrifuð árið 2006.

Reykjavík
Fyrir fjórum árum var ég í meistaranámi við Álaborgarháskóla í Danmörku og vann þá meðal annarra verkefna, rannsóknarverkefni sem var úttekt á umhverfisstefnu Álaborgar og ætla að greina hér örstutt frá því verkefni. Í framhaldinu fjalla ég um þessi málefni í Reykjavík.

Borgaryfirvöld í Álaborg settu sér það markmið gera borgina að umhverfisvænstu borg Evrópu í upphafi 21. aldar. Sem skref að þessu marki, bauð Álaborg til og var gestgjafi fyrstu „Evrópu ráðstefnunnar um sjálfbærar borgir og bæi“ árið 1994, þar sem yfir 600 þátttakendur undirrituðu sáttmála evrópskra borga og bæja um sjálfbæra þróun, svokallaðan Álaborgarsáttmála.

Um margra ára skeið hafa borgaryfirvöld í Álaborg átt góða samvinnu við almenning og fyrirtæki um markmiðssetningu og aðgerðir sem leiða til sjálfbærra lausna á fjölda viðfangsefna. Öll verkefni og áætlanir á vegum borgarinnar verða að fara í umhverfismat og borgarráð Álaborgar útbýr jafnan fjárhagsáætlun í samræmi við umhverfisstefnu sína.

Fjárhagsáætlun í samræmi við aðgerðaáætlun
Borgarráð Álaborgar leggur þunga áherslu á að fjárhagsáætlunin sé í samræmi við aðgerðaáætlun og að unnt sé að mæla, vega og meta þann árangur sem stefnt er að. Ásamt þessu er unnið grænt bókhald til að unnt sé að mæla orku og auðlindanotkun og þar með spara og draga úr mengun. Á þennan hátt setja bæði íbúarnir og þeir sem um stjórnvölinn halda, fingurinn á púlsinn, til að fylgjast með fjárstreymi og framgangi aðgerða til umhverfisbóta.

Einnig er leitað leiða til að endurskapa og viðhalda náttúrulegum svæðum og einkennum þeirra, en skapa jafnframt nægjanlegt rými fyrir íbúabyggð, vegi, iðnað og landbúnað innan borgarmarkanna.

Hreint vatn, hreint loft, úrgangur, endurvinnsla
Stóru viðfangsefnin hjá borgaryfirvöldum í Álaborg snúast um að tryggja gæði neysluvatns og að frárennslismál- og sorpmál séu í góðu lagi. Brýn úrlausnarefni bíða einnig á sviði umferðarmála sem tengist að sjálfsögðu loftmengun. Mikill flöskuháls myndast í umferðinni m.a. vegna umferðar yfir og undir Limafjörð, en ein jarðgöng og ein brú anna vart umferðarþunga á álagstímum. Úrbætur í þessum efnum voru í bígerð þegar að rannsókn minni lauk.

Álaborgarar hafa unnið vel að umhverfismálum sínum í meira en áratug og hefur orðið býsna vel ágengt að mínum mati. Nýtum okkur það sem þeir hafa gert vel. Verndarsvæði vatnsbóla hefur verið stækkað og betur varið fyrir aðsteðjandi mengun. Vel er staðið að hreinsun á frárennslisvatni. Sorpflokkun er í góðu horfi. Umferð gengur greiðlega fyrir sig. Gróður umvefur göngustígakerfið sem er fyrsta flokks. Aðstaða til útivistar, ræktunarstarfs og útitónleika er góð.

Staða Reykjavíkur
En hver er staða Reykjavíkur? Furðu vekur hve skammt á veg umhverfimál eru komin í Reykjavík miðað við það sem best gerist annars staðar. Að mínu mati stendur Reykjavík Álaborg langt að baki á þessu sviði. Það sem er mest áberandi er vanþróað samgöngukerfi í Reykjavík, þ.m.t. göngu- og hjólreiðastígar. Afar brýnt er að huga betur að vatnsverndarmálum. Hreint og heilnæmt vatn er undirstaða alls heilbrigðis. Frárennslismálum þarf einnig að sinna betur. Sorpflokkun og endurvinnsla í Reykjavík er afskaplega ótrúverðug fyrir íbúa og fyrirtæki og í raun á frumstigi. Sundurlaus vinstri öflin hafa sofið á verðinum í umhverfismálum. Mál er að linni.

Allir græða
Allra brýnasta verkefnið á þessu sviði er þess vegna að samþætta umhverfissjónarmið í heildarstefnumótun og rekstur Reykjavíkurborgar. Þörf er á aukinni fræðslu og almennri þátttöku starfsmanna og íbúa borgarinnar í umbótastarfi. Móta þarf stefnu sem sífellt á að endurskoða og bæta. Gera betur í dag en í gær.

Umhverfismál snúast fyrst og fremst um gæðastjórnun. Ef þessi mál eru tekin skynsamlegum tökum næst efnahagslegur,- umhverfislegur og samfélagslegur ávinningur. Allir græða. Á þessum nótum vil ég vinna.

Steinn Kárason.