Gefum umhverfismálum meiri gaum

Steinn Kárason skrifar. Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. nóvember 2005.

Umhverfismál eru einungis einn liður í heildarstefnumótun og stjórnun, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða sveitarfélög. Umhverfismál snerta allt samfélagið í stóru og smáu, hvort sem fjallað er um skipulags-, efnahags- eða félagsmál. Hreint loft, heilnæmt og gott neysluvatn eru algjör grundvallarskilyrði fyrir heilbrigðu lífi. Skynsamleg meðferð á frárennsli, flokkun og endurvinnsla úrgangs bætir lífsgæði í borginni [Reykjavík]. Með því t.d. að færa grænt bókhald er unnt að mæla orku og auðlindanotkun, stýra notkuninni og þar með spara fjármagn og draga úr mengun. Vistvæn vöruinnkaup eru einn hlekkur í slíkri keðju. Við þurfum að líta á þessi mál sem eina heild en ekki sem einangruð fyrirbæri. Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur er fólginn í umhverfisstjórnun. Þess vegna þurfum við að gefa umhverfismálum í Reykjavík meiri gaum.

Skipulag og umhverfi
Hægt er að bæta hag og lífsskilyrði borgarbúa meðal annars með því að draga úr útþenslu borgarinnar, með þéttingu byggðar og endurbótum á húsakosti. Með þessu vinnst margt, svo sem hagkvæmari og skilvirkari auðlindanotkun. Undir þetta fellur dreifing og notkun á orku, s.s. raforku, varmaorku og neysluvatni. Skólp- og frárennslismál, ásamt endurvinnslu og förgun úrgangs og sorps verður einnig hagkvæmari og vistvænni ef vel er að verki staðið.

Vel hönnuð umferðarmannvirki, bættar almenningssamgöngur og styttri vegalengdir í daglegu lífi fólks spara orku og draga úr mengun. Minna álag verður á gatnakerfið og farartækin endast betur.
Gróður og útivist

Græn svæði og gróður í borgum og bæjum hafa mikla þýðingu sem mengunarsía bæði fyrir vatn og loft ásamt því að hafa góð áhrif á nærloftslag, dýralíf og mannlíf. Græn svæði hafa einnig félagslega og efnahagslega þýðingu því þau bæta andlega og líkamlega líðan fólks. Blómleg svæði til útivistar ættu að vera í göngufjarlægð frá hverju heimili. Hafa ber í huga við notkun á fyrirferðarmiklum gróðri að varðveita víðsýni sem náttúrugæði.

Náttúran í borginni
Einn þáttur borgarskipulagi er að leita leiða til að endurskapa og viðhalda náttúrulegum svæðum og einkennum þeirra en skapa jafnframt nauðsynlegt rými fyrir íbúabyggð, samgöngumannvirki, iðnað og landbúnað innan borgarmarkanna. Tvinna þarf saman í skipulagsvinnuna á snjallan hátt, manngert umhverfi og óspjallaða náttúru. Með því að samtvinna umhverfismálefni og gæðastjórnun í heildarstefnu Reykjavíkurborgar mótum við betri borg og betra mannlíf.

Vistvæn og betri borg
Ef við setjum okkur það markmið að móta vistvæna og betri borg, sem ég tel að sé afar brýnt, er þörf á víðtækri þátttöku íbúa og samvinnu borgaryfirvalda. Samvinna við almenning og fyrirtæki um markmiðssetningu og aðgerðir getur leitt til sjálfbærra lausna á fjölda viðfangsefna. Verkefnin sem vinna þarf eru óþrjótandi og snerta flesta þætti samfélagsins, þ.m.t. hagkvæmni í samgöngum, nýsköpun, menntun og almenna velferð borgarbúa. Með þessum hætti setja bæði íbúarnir og þeir sem um stjórnvölinn halda, fingurinn á púlsinn, til að fylgjast með fjárstreymi og framgangi aðgerða til umhverfisbóta.

Ávinningur samfélagsins
Samfélagslegur ávinningur af umhverfis- og gæðastjórnun er augljós. Þess vegna er að mínu mati er afar brýnt að samþætta umhverfissjónarmið með jákvæðum formerkjum í langtímastefnumótun og stjórnun Reykjavíkurborgar. Í þeim efnum er meðalhófið farsælast. Stefnumótunin þarf að vera framsækin og í takt við fjárhagsgetu borgarsjóðs og að sjálfsögðu á að setja óskir, þarfir og öryggi íbúanna í öndvegi.