Trjáklippingar

Í bókinni GARÐVERKIN er að finna ítarlegar upplýsingar um trjá- og runna klippingar. Bókina og myndband um trjá- og runnaklippingar má panta í síma 896-6824 eða í tölvupósti steinn@steinn.is

Í Landnámu Ara fróða Þorgilssonar segir að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þær trjátegundir sem uxu á Íslandi við landnám voru birki, reynir, gulvíðir og fleiri víðitegundir, hinn sígræni einir og að öllum líkindum einnig blæösp og einstaka rós. Þetta eru því hinar einu sönnu íslensku trjátegundir. Lífsbarátta fólksins í landinu og óblíð náttúruöfl hafa valdið gróðureyðingu um aldir. Saga trjáræktar á Íslandi spannar nú eina öld. Einkum hafa verið ræktaðar hér á landi erlendar trjátegundir sem ekki eru hluti af íslenskri náttúru. Ræktun erlendra trjátegunda á Íslandi hefur mætt andúð náttúruunnanda. Tré og runnar þykja fegra og prýða og eru vaxandi þáttur í mótun umhverfis. Trjá- og skógrækt hefur einnig áhrif á hagkerfið og félagslega þætti vegna þess að gróðurvinjar mynda sælureiti fyrir blómlegt mannlíf.

Að móta vöxt viðarplantna
Nauðsynlegt er að laga til vöxt viðarplantna. Með því að klippa reglulega og á markvissan hátt næst betri ræktunarárangur. Trjáklipping sem framkvæmd er á réttan hátt, gefur gróðrinum meira notagildi og meira yndis má af honum njóta. Hægt er að stýra vexti, þéttleika, hæð og umfangi gróðurs. Einnig er hægt að hafa áhrif á blómmyndun í þá veru að auka blómgun og þar með uppskeru berja og aldina. Rangar aðfarir geta hins vegar leitt til hins gagnstæða.

Á hvaða árstíma?
Aðal klippingatíminn er að vetri og snemma vors á meðan gróðurinn er í mestri hvíld, enda er þá auðveldara að átta sig á vaxtarlaginu en á fulllaufguðum gróðri. En vel að merkja, það má klippa allan ársins hring, en áherslur klippingarinnar verða hins vegar að miðast við tegundir, aðstæður á vaxtarstað og tilgangi með ræktun hverrar tegundar.

Víðitegundir, nema gljávíðir þola sem dæmi, haust- og vetrarklippingu og einnig birki þegar líður að áramótum. Gullregn og ilmreynir geta verið viðkvæmar fyrir sveppasýkingu, einkum við sjávarsíðuna og ætti fræðilega séð, að klippa síðvetrar, að vori og fyrri hluta sumars.

Fullgild fræðileg rök má færa fyrir því að best sé að grisja að sumri. Ástæðan er sú að þá er lífs- og varnarþróttur plantna mestur, sárin fara strax að gróa og gró fúasveppa í andrúmslofti eru í lágmarki. Síst ætti að klippa að í kringum lauffall að hausti. Reynslan hefur þó kennt að réttar aðfarir við trjáklippingu hafi miklu meira að segja en sjálf tímasetningin.

Helstu reglur við trjáklippingu
Sömu meginreglur gilda um klippingu trjáa og runna. Þegar við gróðursetningu þarf að móta til vaxtarlag trjáa og runna, klippa burt skaddaðar greinar og rætur.
Fjarlægja þarf alla kalkvisti og dauðar greinar og það má gera allt árið. Síðan er hafist handa við að móta vöxt plantnanna. Meginreglan er sú að fjarlægja ekki meira af greinum í einum áfanga, af hverri plöntu en sem nemur fjórum hlutum af tíu. Þessi regla er þó þverbrotin við endurnýjun á sumum víðitegundum og einnig birkikvist t.d.

Krónuklipping
Viturlegt er að klippa tré reglulega, allt frá útplöntun til fullorðins ára. Gera verður greinarmun á margstofna og einstofna trjám. Ein af grundvallarreglum trjáklippinga, einkum krónuklippingu er að klippa ofan við útlægt brum eða grein og skilja ekki eftir stubba. Markmiðið með klippingu á reynivið er að vel lofti um trjákrónuna. Meiriháttar klippingu á hlyn og birki ætti að framkvæma meðan trén eru í hvíld, því skömmu fyrir laufgun blæðir úr sárunum. Á þeim tíma er oft dregið úr klippingum á þessum tegundum. Góðir fagmenn geta metið hve mikið skuli klippa við mismunandi aðstæður á mismunandi árstíma. En eftir laufgun má hins vegar klippa að nýju.

Venjulega næst bestur árangur við grisjun trjákrónu ef fjarlægðar eru nokkrar stórar greinar, fremur en margar smáar. Með því að fylgja nokkrum grundvallar reglum við klippingarnar næst venjulega sá árangur sem að er stefnt.

Greni og sígrænt
Ef stytta þarf langar greinar á greni er klippt við greinaskil án þess að skilja eftir stubba, hið sama gildir um furu. Þegar um tvítoppa eða margtoppa tré er að ræða skal fjarlægja lakari greinarnar en skilja eftir besta toppinn. Flest barrtré eru klippt síðvetrar og að vori svo að sár nái að lokast fyrir haustið. Til að þétta vöxt furu eru vorsprotarnir eða „brumin“ brotin í sundur þegar þau hafa náð þriggja til fimm sentímetra lengd.

© Steinn Kárason