Nauðsynlegt er að laga til vöxt viðarplantna. Með því að klippa reglulega og á markvissan hátt næst betri ræktunarárangur. Trjáklipping sem framkvæmd er á réttan hátt, gefur gróðrinum meira notagildi og meira yndis má af honum njóta. Hægt er að stýra vexti, þéttleika, hæð og umfangi gróðurs. Einnig er hægt að hafa áhrif á blómmyndun í þá veru að auka blómgun og þar með uppskeru berja og aldina. Rangar aðfarir geta hins vegar leitt til hins gagnstæða.
Aðal klippingatíminn er að vetri og snemma vors á meðan gróðurinn er í mestri hvíld, enda er þá auðveldara að átta sig á vaxtarlaginu en á fulllaufguðum gróðri. En vel að merkja, það má klippa allan ársins hring, en áherslur klippingarinnar verða hins vegar að miðast við tegundir, aðstæður á vaxtarstað og tilgangi með ræktun hverrar tegundar.