Betra umhverfi, betra samfélag

Steinn Kárason skrifar um hagrænt, samfélagslegt og umhverfislegt gildi umhverfisstjórnunar. Greining birtist í Morgundblaðinu 27. október 2006.

Í hörðu, síbreytilegu samkeppnisumhverfi hafa kröfur um sjálfbæra þróun og almenn umhverfisvitund orðið til þess að ný og breytt lög og reglur um umhverfismál hafa tekið gildi. Fyrirtæki og stofnanir hafa í vaxandi mæli orðið fyrir þrýstingi frá hluthöfum, viðskiptavinum, neytendum og öðrum hagsmunaaðilum í að bæta umhverfisframmistöðu sína. Þessi þrýstingur hefur víða leitt til umhverfisbóta, meiri umhverfisskilvirkni (eco-efficiency) og hagræðingar í rekstri fyrirtækja. Í stuttu máli þýðir þetta minni aðföng og vistvænni, lægri rekstrarkostnað og skilvirkari stjórnun sem leiðir af sér meiri arðsemi fyrirtækja.

Ábati fyrirtækja og stofnana af umbótastarfi á sviði umhverfismála og innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfa er ekki aðeins fjárhagslegur, heldur einnig samfélagslegur og vistfræðilegur. Náttúran og auðlindir nýtast betur og á endurnýjanlegan hátt. Góð ímynd fyrirtækja er mikilvæg í þessu sambandi því gott orðspor er gulls ígildi.

Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að það er hagrænn ávinningur, eða með öðrum orðum, beinharðir peningar sem eru aðal drifkrafturinn í umhverfisstjórnun í samspili félagslegra þátta og vistfræði. Með öðrum orðum, samspil náttúru, samfélagslegra hagsmuna og arðsemi. Málefnaleg umræða um auðlindanýtingu verður að byggja á þessum þrem grunn þáttum.

Umræða um umhverfismál hér á landi er afar mikilvæg. Náttúruverndaráætlun fyrir 2004–2008 og rammaáætlun um nýtingu hálendisins ættu að beina umræðunni í góðan farveg, sem og nýlega kynnt drög ríkisstjórnarinnar að langtímastefnumótun á sviði auðlindanýtingar og náttúruverndar.

Samkvæmt skoðunum umhverfissérfræðinga og ráðgjafarfyrirtækja um umhverfismál er góð umhverfisstjórnun nú viðurkennd sem sjálfsagður hluti af stjórnunarstefnu fyrirtækja. Fyrirtæki sem taka frumkvæði við umhverfisbætur eru að öllu jöfnu vel rekin, þau eru álitin betri viðskiptavinir t.d. banka og tryggingafyrirtækja og viðskiptavinir sópast gjarna að þeim vegna trausts þeirra og trúverðugleika. Tækifæri fyrirtækja og stjórnenda sem ná að tileinka sér góða umhverfisstjórnun getur leitt til fjölmargra sóknarfæra á öllum sviðum viðskiptalífsins.

Helstu verkfæri og aðferðir við umhverfisstjórnun eru t.d. grænt bókhald þar sem skráð og mæld er orku og hráefnanotkun, en jafnframt umhverfisáhrif af rekstri.

Við vistvæna vöruþróun er lögð áhersla á að vara eða þjónusta sem verið er að þróa uppfylli skilgreindar umhverfiskröfur ásamt hefðbundnum markaðskröfum.

Með vistferilgreiningu eru metin heildar umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir allan vistferil vörunnar, allt frá vinnslu hráefna í vöruna þar til henni er fargað eða hún endurunnin.
Ef við náum að tileinka okkur notkun þessara aðferða og verkfæra mun okkur betur farnast við náttúrvernd og auðlindanýtingu.