Auðlindanýting, menntun og velferð

Steinn Kárason skrifar. Greinin birtist í Morgunbaðinu 28. október 2006.

LÖNGU er tímabært að þjóðin móti stefnu til langs tíma um nýtingu hálendisins sem og annarra landsins gagna og gæða. Því ber að fagna að ríkisstjórnin hefur lagt fram drög að þeirri vinnu. Að sjálfsögðu á Alþingi að leiða þetta ábyrgðarstarf en þjóðin þarf að draga lærdóm af reynslu liðinna ára í umhverfismálum. Brýnt er að bærileg sátt náist um nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að kalla til verka alla hugsanlega hagsmunaaðila, s.s. sveitarfélög, frjáls félagasamtök, einstaklinga og aðra sem hafa beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta. Ég álít það vera borgaralega skyldu hvers og eins að taka þátt í stefnumótun um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Menntamál og nýsköpun
Menntamál, nýsköpun og rannsóknir eru lykillinn að velmegun og samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Líta þarf á menntun sem fjárfestingu fremur en útgjöld. Menntun, fræðsla og stefnumótun í umhverfismálum varðar allt samfélagið. Þess vegna ætti í vaxandi mæli að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í námskrá á öllum menntastigum á Íslandi, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Nauðsynlegt er að auka samvinnu atvinnulífsins, fyrirtækja og háskóla um rannsóknir og nýsköpun vegna þess að menntastefna og atvinnustefna hvers samfélags eru tvær hliðar á sama peningi.

Fjölskyldan, hornsteinn samfélagsins
Höfum hugfast að fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins. Því ber að tryggja að til staðar sé traust öryggisnet fyrir borgarana og velferð frá vöggu til grafar. Tryggja þarf frelsi einstaklinga og fyrirtækja til athafna í þágu lands og þjóðar en jafnframt þurfum við að sýna þann manndóm og mildi að rétta hjálparhönd þeim sem það þurfa.

Mannauður og kosningar
Við eigum miklar náttúruauðlindir. Mesti auðurinn er þó í fólkinu sjálfu. Þennan mannauð þarf að virkja, efla og varðveita til framtíðar. Beisla þarf orku einstaklinganna og beina henni í farsælan farveg til heilla fyrir heildina. Menntun mín, reynsla og þekking á sviði umhverfisstjórnunar og auðlindanýtingar er mitt lóð á þessar vogarskálar.

Brýnt er að á framboðslista stjórnmálaflokkanna veljist öflug breiðfylking fólks sem endurspeglar íslenskt samfélag, fólks sem hefur færni til að efla og viðhalda hagsæld íslensku þjóðarinnar. Á kjördag ættu kjósendur að hafa í huga stuðning við frambjóðendur og stjórnmálaflokka sem setja í öndvegi náttúruvernd, umhverfisstjórnun og skynsamlega auðlindanýtingu.