Garðyrkjunámskeið verða haldin á næstunni í samstarfi við Námsflokka Hafnarfjarðar. Skráning er á heimasíðu Námsflokka Hafnarfjarðar og í síma 585 5860. Námskeiðin verða haldin sem hér segir:
Sáning og ræktun kryddjurta og matjurta
6. febrúar – 1 skipti. Mánudagur kl. 19:30 – 21:30. Verð kr. 6.000,-
Fjallað um sáningu og ræktun algengra og auðræktanlegra kryddjurta og matjurta. Sagt frá mismunandi tegundum og afbrigðum og á hvaða árstíma er vænlegast að sá til hverrar tegundar. Þátttakendur fá fræðslu um hvaða ræktunaraðstæður og hvaða aðföng þarf til að ná góðum ræktunarárangri.
Ávaxtatré, ræktun og klipping
13. og 20. febrúar – 2 skipti. Mánudaga kl. 19:30 – 21:30. Verð kr. 8.500,-
Fjallað er um gróðursetningu, klippingu og umhirðu helstu ávaxtatrjáa sem þrífast á Íslandi, en það eru epli, perur, plómur og kirsuber. Helstu efnisatriði námskeiðsins eru yrki, jarðvegur, skjól, áburður og vökvun ásamt uppbindingu, frjóvgun og grisjun blóma og aldina. Sýndar verða teiknaðar skýringarmyndir og einnig ljósmyndir af íslenskum ávaxtatrjám.
Trjá- og runnaklippingar
1. mars – 1 skipti. Mánudagur kl. 19:00 – 21:30. Verð kr. 6.500,-
Fjallað er um tímasetningu og klippingaaðferðir, s.s. vaxtarstýringu, krónuklippingu lauftrjáa, klippingu barrtrjáa, formklippingu, uppbyggingu og klippingu limgerða. Kennt er að greina á milli klippingaaðferða runna sem blómgast á árssprotum eða á fyrra árssprotum. Einnig fjallað um rósir, algenga berjarunna og að færa tré og runna. Fjallað um græðlingatöku og undirstöðuatriði við fjölgun og sáningu nokkurra viðartegunda.
Lífræn ræktun
6. mars – 1 skipti. Mánudagur kl. 19:00 – 21:00. Verð kr. 6.000,-
Helstu efnisþættir á námskeiðinu eru markmið lífrænnar ræktunar og lífræns landbúnaður. Tilgangur lífrænnar ræktunar og aðferðafræði byggð á reynslu kynslóðanna. Lífrænn áburður og hlutverk hans, safnhaugagerð, safngryfjur, tunnur og tankar. Áhrif himinhnatta á plöntur, hvatar og sáðalmanök og loks er fjallað um lífrænar varnir gegn sjúkdómum, þar með talið seyði.
Vorverkin í garðinum
3. mars – 1 skipti. Mánudagur kl. 19:00 – 21:00. Verð kr. 6000,-
Helstu umfjöllunarefni á námskeiðinu eru trjá- og runna klippingar, gróðursetning og umplöntun ásamt áburðargjöf. Hreinsun beða og safnhaugagerð. Að færa tré og runna. Grassláttur og aðgerðir gegn mosa. Kantskurður, vökvun og önnur viðhaldsverk. Áherslur á námskeiðinu verða sniðnar að óskum þátttakenda eins og kostur er.